fimmtudagur, desember 18, 2008

Íslenskt - já takk

Farewell Good Night's Sleep er titillinn á nýjustu hljómplötu Lovísu „Lay Low“ Sigrúnardóttur. Samkvæmt tölum Tónlista blaðsins í dag er platan 10. söluhæsta plata vikunnar en hún hefur verið á listanum nú í 2 mánuði. Einnig má nefna að jómfrúarsmáskífa plötunnar, By and By, er 6. mest leikna lagið á útvarpsstöðum landsins og er búið að vera á meðal efstu 30. í tæpa 3 mánuði! Allt er þetta gott og blessað, Lovísa á allt gott skilið og hin minni íslensku plötufyrirtæki mega svo sannarlega skilið móttökum af þessari breiddargráðu.

Mér brá þó heldur betur þegar ég rakst á plötuna í hljómplötubúð í Kringlunni nú í jólamánuðinum. Skífan var þar fagurlega stillt upp undir formerkjum þorsksins í miðri búð, sýnileg öllum stökum mengisins „Skífan, Kringlunni“. Á snyrtilega plastbúnu umslaginu lá álímdur miði sem á stóð „100% íslenskt“! 

Er það nú lygi! Ég held að engin plata hafi verið eins óíslensk í háa herrans tíð. Ekki einu sinni Hollywood plata Herberts Guðmundssonar var svo erlend! Í fyrsta lagi, það sem liggur efst á yfirborðinu, platan ber erlendan titil, Farewell Good Night‘s Sleep og listakonan sjálf sem í birtu skammdegisins ber fallegt al-íslenskt nafn (þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni fæðst á Íslandi) felur sig undir erlendu hliðarsjálfi - Lay Low. Öll lög bera enskan titil – öll lög eru sungin á erlensku. Lögin eru meiri að segja ekki öll stíluð á hinn íslenska flytjanda (The Reason Why My Heart‘s in Misery er eftir herra „Lefty“ Frizzell! (Það er þó kannski ósanngjörn árás þar sem mörg af þekktari íslenkum slögurum eru í rótina eftir erlenda höfunda, þó svo textum sé oftast snarað yfir á okkar alhýra)). Platan er tekin upp í Lundúnum, sem var ekki að finna á landakorti Landmælinga Íslands af hinu freðna föðurlandinu, undir handleiðslu Liam Watson í Toe Rag hljóðverinu (á al-erlendan búnað ef farið er út í þá sálma). 

Það sem fer þó mest fyrir brjóstið á annars hjartsterkum einstaklingi er það að meiri hluti, ef ekki allir, tónlistarmannanna sem leggja hönd á plóg eru af erlendri kviku! Carwyn Ellis, Ed Turner, Rupert Brown, Matt Radford, Jason Wilson og BJ Cole. Þeir hafa það ekki einu sinni í sér að bera skandinavísk eftirnöfn eða alþjóðleg fornöfn (fyrir utan Jason kannski og einhverstaðar las ég nú að Matt væri orðið gjaldgengt millinafn...) sem bera má fram á íslenskunni! Hvernig er hægt að réttlæta límmiða sem á stendur „100% íslenskt“ þegar útgáfufyrirtækið sjálft getur ekki einu sinni borið íslenskt heiti! (Ég dreg það svo í efa að platan hafi verið pressuð og prentuð á Klakanum! )

Er ekki eithvað í lögum sem banna svona lygar!!??

Á móti kemur þó að platan er mjög fín og er kjörin í jólapakkana. Málið er einfalt. Engin plata er 100% íslensk, hvað þá 84% íslensk! Plata eins og Farewell Good Night‘s Sleep, sem er svo bersýnilega algjörlega óíslensk á ekki að bera svona fáránlega lygi á umslaginu, hún á ekki að þurfa þess. Platan er vel gerð í alla staði og það eina íslenska við skífuna, Lovísa sjálf, má vera hreikin, en Herra Kári „Cod Music“ taktu þennan límmiða af umslaginu. Þetta er til háborinnar skammar.

-albert (með alóíslensku sveitina Harmonia á fóninum. Takk Benni – algjört yndi!)