fimmtudagur, apríl 12, 2007

Ég dansa einn

Á þessu ári hef ég alltaf borðað einn á fimmtudagskvöldum í apríl. Það er gífurlega einmannalegt að búa til máltíð handa einum. Úr kjallaranum ómar einhver frönsk gella syngjandi lífshlaupssöngva Elliot Smiths. Að elda einn er jafnframt mjög erfitt, því það endar sjaldnast í heilum máltíðum. Mér hefur því aldrei tekist að elda ofan í mig einan. Hversu ömurlegt er það að mistakast að elda ofan í sjálfan sig? Oftast samtíningur hingað og þangað um eldhúsið. Engin næring og engin ástríða. Samþjöppuð kjúklinga Campbells og brauð. Vatn. Ekkert ósvipað og í tugthúsum. Að elda samþjöppuðu kjúklingasúpuna hans Campbells, náskyldan frænda listverka Warhols, er engin ástríða. Það er engin ástríða í að opna niðursuðurdósir. Það er enginn að fara að segja mér að þú getur sett hjartað þitt (andlega/ljóðrænt, ekki bókstaflega) í súpu gerða úr þurkuðu kjúklingasagi og 7 ára gömlum kjúklingastrimlaleifum. (Hvað þá grænar baunir? Ora? Ástríða í matargerð?) En fyrir vikið er niðursuðudósamatur minn uppáhalds matur. Hann bragaðst alltaf nákvæmlega eins og þú veist nákvæmlega við hverju er að búast. Það er ekki gaman að eyða hálfri tylft klukkustunda í einhverja matargerð sem þú veist aldrei hvort eftir eigi að bragðast vel eður illa. Ég hef lært það af Sigurgeir efnafræðikennaranum mínum, og lífspekúlant með meiru, að óvissa í mælingum skipti öllu. Því fleiri mælingar því meiri óvissa. Því meiri óvissa því ónákvæmari mælingar. Með þeirri reglu verður matur sem tekur lengri tíma að undirbúa og útbúa skili sér í verri niðurstöðu. Við matreiðslu á Campbells súpum er en mæling. Það er mæling vatns (eða blöndu af vatni og mjólk) sem fer fram í sömu dós og samþjappaða súpu þykknið kom í. Þýðir það ekki að mælingarnar eru ávalt nákvæmlega hinar sömu? Minni tími, minni óvissa, betri niðurstaða. Með þessu hef ég sannað það að allur örbylgjumatur og niðursuðudósamatur er betri en allar jólarjúpur, þakkagjarðarkalkúnar og páskahérar til samans, þar sem samanlögð óvissa í mælingum örbylgju- og niðursuðudósamatnum er ávalt minni en óvissa í mælingum hátíðarmatsins.


besta blogg there is?

P.S. Samþjöppuðu súpur Campbells eiga 110 ára afmæli í ár.

P.S.2 70 ár eru liðin frá því að Campbells kynntu fyrstu grænmetissúpurnar fyrir grænmetisætur.

P.S.3. Hálf öld er liðin frá því að Campbells súpur fengust utan Ameríku.

P.S.P. Þetta blogg er tileinkað börnunum sem hafa aldrei hlotnast sá heiður að smakka Campbells.


- Albert Finnbogason, forfallinn súpuáhugamaður.